Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Hægeldaðir lambaskankar í rauðvínssósu

Marta Rún ritar:

Hráefni

 • 4 lambaskankar
 • salt og pipar
 • 3 tsk olífuolía
 • 1 bolli smátt saxaður laukur
 • 1 bolli smátt saxaðar gulrætur
 • 1 bolli smátt saxað sellerí
 • 3 hvítlauksgeirar
 • 2 og hálfur bolli rauðvín (þú vilt frekar hafa rauðvín sem eru aðeins þyngri)
 • 800 g hakkaðir tómatar í dós
 • 2 msk tómatapúrra
 • 2 bollar kjúklingasoð
 • 2 tsk þurrkað timían
 • 2 lárviðarlauf

Aðferð

Hitið ofninn í 180°. Þurrkið lambaskankana aðeins með pappír og saltið og piprið þá alla vel.
Finnið til stóran pott eða stórt fat með loki. Steikið lambaskankana á háum hita þangað til þeir eru orðnir brúnir á öllum hliðum og færið yfir á disk. Lækkið hitann í miðlungshita og bætið við smá olíu. Steikið laukinn og hvítlaukinn í pottinum í 2 mínútur og bætið síðan gulrótunum og selleríinu ofan í pottinn og steikið í aðrar 5 mínútur.
Bætið við rauðvíninu, kjúklingasoðinu, tómötunum, tómatapúrrunum, timían og lárviðarlaufinu. Hrærið og blandið saman. Bætið síðan lambaskönkunum í pottinn og fáið allt til að byrja að malla saman. Setjið lok á pottinn og setjið inní ofn í 2 klst og aðrar 30 mínútur án þess að hafa lokið.

Setjið kartöflumús á disk og leggið lambaskankann ofan á. Kreistið vel allt grænmetið og rauðvínssósuna sem er eftir í pottinum og hrærið vel saman og smakkið hvort það vanti smá salt eða pipar. Hellið síðan sósunni yfir í sósufat eða skál og hellið yfir lambaskankann.


Með þessum rétt mælir Vinó með Cune Reserva

Vínótek segir:

Cune er eitt af þremur vínhúsum innan CVNE (Compania Vinicola del Norte de Espana). Hin tvö heita Vina Real og Contino og öll þrjú hafa sína sérstöðu í Rioja og eru í hópi þeirra bestu í sínum flokki. Cune-vínin hafa verið að nútímavæða stílinn hjá sér síðustu árin, meiri áhersla á kröftugan ávöxt og þetta vín ber þess merki. Angan af dökkum kirsuberjum og trönuberjum, þétt og fín eik og tannín halda utan um vínið, smá kókos og reykur, mild kryddangan, allspice, langt og enn ungt.
2.699 krónur. Frábær kaup, mikið vín fyrir peninginn. Með bestu lamba- og nautasteikunum. Gefið víninu tíma til að opna sig.

Share Post