Hægeldaðir lambaskankar í rauðvínssósu

Uppskrift: Marta Rún Ársælsdóttir

Hráefni:

  • 4 lambaskankar
  • salt og pipar
  • 3 tsk olífuolía
  • 1 bolli smátt saxaður laukur
  • 1 bolli smátt saxaðar gulrætur
  • 1 bolli smátt saxað sellerí
  • 3 hvítlauksgeirar
  • 2 og hálfur bolli rauðvín (þú vilt frekar hafa rauðvín sem eru aðeins þyngri)
  • 800 g hakkaðir tómatar í dós
  • 2 msk tómatapúrra
  • 2 bollar kjúklingasoð
  • 2 tsk þurrkað timían
  • 2 lárviðarlauf

Aðferð:

Hitið ofninn í 180°. Þurrkið lambaskankana aðeins með pappír og saltið og piprið þá alla vel.
Finnið til stóran pott eða stórt fat með loki. Steikið lambaskankana á háum hita þangað til þeir eru orðnir brúnir á öllum hliðum og færið yfir á disk. Lækkið hitann í miðlungshita og bætið við smá olíu. Steikið laukinn og hvítlaukinn í pottinum í 2 mínútur og bætið síðan gulrótunum og selleríinu ofan í pottinn og steikið í aðrar 5 mínútur.
Bætið við rauðvíninu, kjúklingasoðinu, tómötunum, tómatapúrrunum, timían og lárviðarlaufinu. Hrærið og blandið saman. Bætið síðan lambaskönkunum í pottinn og fáið allt til að byrja að malla saman. Setjið lok á pottinn og setjið inní ofn í 2 klst og aðrar 30 mínútur án þess að hafa lokið.

Setjið kartöflumús á disk og leggið lambaskankann ofan á. Kreistið vel allt grænmetið og rauðvínssósuna sem er eftir í pottinum og hrærið vel saman og smakkið hvort það vanti smá salt eða pipar. Hellið síðan sósunni yfir í sósufat eða skál og hellið yfir lambaskankann.

Vinó mælir með Cune Reserva með þessum rétt.