Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Grillað eggaldin með fetaosti, tómötum og ólífum

Linda Ben ritar:

Hráefni:

 • 1 eggaldin skorið í sneiðar
 • u.þ.b. 3 msk ólífu olía
 • salt og pipar eftir smekk
 • Þurrkað basil krydd
 • Þurrkað oregano krydd
 • u.þ.b. 5-6 kirsuberja tómatar
 • u.þ.b. 10 grænar ólífur
 • u.þ.b. 2 msk fetaostur

Aðferð:

 1. Skerið eggaldinið niður í u.þ.b. 1 cm þykkar sneiðar
 2. Penslið það með olíu og kryddið.
 3. Skerið tómatana í helminga og raðið á grillbakka ásamt ólífunum, dreifið svolítið af olíu yfir og kryddið.
 4. Grillið eggaldinið í 3-4 mín á hvorri hlið og setjið tómatbakkann líka á grillið, hrærið reglulega í tómötunum.
 5. Raðið saman á disk og setjið feta ost yfir.

Með þessari ljúffengu uppskrift mælir Vínó með Pares Balta Mas Petit 

Pares Balta Mas Petit

Víngarðurinn segir:

Tveir síðustu árgangar sem ég hef fjallað um, af Mas Petit, frá víngerðinni Pares Balta, 2010 og 2013 fengu báðir fjórar stjörnur hjá mér og núna er það árgangurinn 2015 sem er í hillum vínbúðanna og hann fær plúsinn að auki, enda er hérna á ferðinni ein besta útgáfa af þessu víni sem ég hef smakkað. Sem fyrr er það blandað úr þrúgunum Garnaxta (Grenache) og Cabernet Sauvignon og er vottað lífrænt (í upphafi var það aðeins gert úr lífrænum berjum).

Það hefur rétt meðaldjúpan plómurauðan lit og rétt ríflega meðalopna angan af dökkum sultuðum berjum, kirsuberjum, plómum, fylltum lakkrís, súkkulaði, kanil, stjörnuanís og rykugum steinefnum. Það er ríflega meðalbragðmikið í munni, sýruríkt með þétt og mjúk tannín og í góðu jafnvægi. Þarna eru dökk ber, sultuð krækiber, plóma, lakkrís, kakó, austurlensk krydd og rykugur sveitavegur. Afar vel gert, heilbrigt og þétt rauðvín sem er fínt með allskonar Miðjarðahafsmat, grillmat, pottréttum og rauðu kjöti.

Verð kr. 2.299.- Frábær kaup.

Share Post