Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni


Fyllt svínalund með geitaosti

Marta Rún ritar:

Ég geri mjög oft fyllta svínalund með mismunandi fyllingum og í raun oft einhverju sem til er í ísskápnum.
Mér þykir þetta alltaf jafn gott og frábær réttur fyrir matarboð.
Þessi uppskrift er ekki flókin, inniheldur ekki mörg hráefni og allir ættu að ráða við hana.

Fyrir 4

Hráefni

 • 1 svínalund
 • 5-6 sneiðar af beikoni
 • 6-7 smátt saxaðir sveppir
 • ½  laukur smátt saxaður
 • 2 pressaðir hvítlauksgeirar
 • 2 stórar lúkur spínat
 • 1 msk smátt saxaður graslaukur
 • Lúka af smátt saxaðri steinselju

Aðferð

 1. Byrjaðu á því að skera í miðja lundina, niður í svona ¾ af henni.
  Skerðu þá út í báðar hliðar og reyndu að fletja hana út á brettið. Saltið og piprið yfir lundina.
 2. Setjið geitaostinn í skál með saxaða graslauknum, steinseljunni, smá salt, pipar og blandið vel saman.
 3. Steikið laukinn og hvítlaukinn á pönnu við miðlungsháan hita þangað til hann er orðinn aðeins mjúkur,
  bætið þá við sveppunum og spínatinu og steikið í 2-3 mínútur.
 4. Raðið beikonsneiðum undir svínalundina. Smyrjið rjómaostablöndunni yfir hana og síðan sveppablöndunni.
  Klemmið saman lundina og lokið með tannstöngli og beikoninu.
 5. Setjið í eldfast mót með kartöflusneiðum í 200° ofn í 45 mínútur.
 6. Takið út úr ofninum og setjið álpappír yfir og leyfið henni að standa í 10 mínútur áður en þið berið hana fram.

Með þessum rétt mælir Vínó með Cune Reserva

Cune Reserva 2014

Vínótek segir;

Cune er eitt af þremur vínhúsum innan CVNE (Compania Vinicola del Norte de Espana). Hin tvö heita Vina Real og Contino og öll þrjú hafa sína sérstöðu í Rioja og eru í hópi þeirra bestu í sínum flokki. Cune-vínin hafa verið að nútímavæða stílinn hjá sér síðustu árin, meiri áhersla á kröftugan ávöxt og þetta vín ber þess merki. Angan af dökkum kirsuberjum og trönuberjum, þétt og fín eik og tannín halda utan um vínið, smá kókos og reykur, mild kryddangan, allspice, langt og enn ungt.

2.699 krónur. Frábær kaup, mikið vín fyrir peninginn. Með bestu lamba- og nautasteikunum. Gefið víninu tíma til að opna sig.

Share Post