Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Fljótlegt og gott lasagna með hvítri sósu

Uppskrift Linda Ben

Hráefni:

 • 1 pakki nautahakk
 • 1 pakki ferskt Lasagna frá Pastella
 • ½ rauðlaukur, smátt skorinn
 • 3 meðal stórar gulrætur
 • 2 hvítlauksgeirar
 • 1 stór krukka (750 ml) pastasósa
 • 1 msk ítölsk kryddblanda
 • ½ tsk salt
 • 1 tsk pipar
 • þ.b. 1 stór lúka spínat, sjá aðferð
 • 300 g rjómaostur
 • 1 egg
 • 100 g rifinn ostur

Aðferð:

 1. Byrjið á því að kveikja á ofninum og stilla á 200°C.
 2. Skerið laukinn, og gulræturnar smátt niður. Steikið grænmetið á pönnu þangað til laukurinn er orðinn vel mjúkur.
 3. Bætið þá hakkinu út á pönnuna og steikið það þangað til það er fulleldað.
 4. Skerið hvítlauksgeirana smátt niður og steikið þá létt með hakkinu. Bætið sósunni út á pönnuna. Kryddið sósuna svolítið eftir smekk.
 5. Setjið rjómaost í skál og hrærið hann þangað til hann verður mjúkur. Bætið þá 1 eggi saman við og hrærið saman.
 6. Takið ykkur frekar stórt eldfast mót, setjið þunnt lag af kjötsósu í botninn og leggið svo lasagna plötur yfir. Setjið 1/3 af hvítu ostasósunni yfir lasagna plöturnar. Takið 1 góða lúku af skoluðu+þerruðu spínati og dreifið yfir. Setjið svo kjötsósu+lasagna plötur+hvítasósu yfir og endurtakið það svo í þriðja skiptið.
 7. Dreifið rifnum osti yfir og bakið inn í ofni í 25 mín.

 

Vinó mælir með Melini Chianti Governo

Víngarðurinn Vín og Fleira  segir;

„Það er alltaf gaman að fá gott Chianti-vín og sérstaklega þegar þau eru vel prísuð en þetta hér fær eiginlega hálfa stjörnu í viðbót fyrir frábært verð á svona góðu víni. Það hefur meðaldjúpan rúbínrauðan lit og meðalopna og dæmigerða angan af kirsuberjum, leðri, beiskum möndlum, lakkrís, sultuðum krækiberjum, þurrkuðum appelsínuberki, og jörð. Það er meðalbragðmikið og þurrt með góða sýru og ágæta fyllingu en tannínin eru ögn hrjúf sem dregur það pínulítið niður. Þarna eru kirsuber, krækiberjahlaup, lakkrís, kakó, þurrkaðar fíkjur og jörð. Dæmigert og fínt vín þótt það sé kannski ekki það flóknasta og þykkasta sem hægt er að finna, en þessvegna er kannski auðveldara að finna mat sem stendur með því. Allskonar ítalskur matur klikkar ekki td dökkt pasta, hægeldað svínakjöt og lamb.

Verð kr. 2.299.- Frábær kaup.“

Share Post