Ribeye steikur með trufflu kartöflumús og heimalöguðu kryddsmjöri

Hráefni

Ribeye, 2x 250 g

Bökunarkartöflur forsoðnar, 2 stk sirka 

Rjómaostur, 45 ml

Rjómi, 80 ml

Parmesanostur, 20 g

Truffluolía, 1 tsk / Elle Essen

Graslaukur, 4 g

Smjör, 60 ml / Við stofuhita

Hvítlauksrif, 2 lítil eða 1 stórt

Steinselja, 2 msk söxuð

Sítróna, 1 stk

 

Aðferð

Pressið hvítlauksrif og rífið um 2 tsk af sítrónuberki (varist að taka hvíta undirlagið með). Blandið saman hvítlauk, smjöri, saxaðri steinselju og sítrónuberki. Smakkið til með salti. Vefjið inn í matarfilmu eða smjörpappír og myndið lengju. Kælið.

Takið kjötið úr kæli amk 1 klst fyrir eldun, en það mun hjálpa til við jafnari og betri eldun.

Nuddið kjötið með olíu og saltið rausnarlega. Piprið eftir smekk.

Skrælið bökunarkartöflurnar og setjið í lítinn pott með rjómaosti og rjóma. Stappið saman og hitið við miðlungshita þar til heitt í gegn. Rífið parmesanost saman við og blandið vandlega saman við ásamt truffluolíu. Smakkið til með salti. Sneiðið graslauk rétt áður en maturinn er borinn fram og hrærið saman við kartöflumúsina.

Hitið olíu á pönnu við meðalháan hita og steikið steikurnar í 3-4 mín á hvorri hlið eða þar til kjötið hefur náð 55 °C kjarnhita fyrir medium rare. Þá er gott að notast við kjöthitamæli. Gott er að bæta smjörklípu út á pönnuna og dreypa bráðnu smjörinu yfir kjötið á meðan það steikist síðustu 2 mín. Leyfið kjötinu að hvíla í um 5 mín áður en það er borið fram.

Berið fram með góðu salati.

 

 

Vínó mælir með: Vina Real Crianza með þessum rétt. 

Uppskrift: Matur & Myndir