Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni
 

La Vie en Rosé

Það er merkilega algengt að vínáhugafólk líti niður á rósavín og lætur það alfarið eiga sig á meðan það gerir sér far um að njóta góðra rauð- og hvítvína. Þetta sama fólk fer á mis við margt í sumar, því með hækkandi sól er gráupplagt að njóta rósavíns, þessa ljúfa og sumarlega léttvíns sem er í senn þægilegt að drekka og frískandi á bragðið, passar prýðilega með margs konar góðum mat (við komum að því síðar) og skapar einhvernveginn létta og áhyggjulausa stemningu í góðra vina hópi. En hvað nákvæmlega eru rósavín? Hefur tilurð þeirra eitthvað með rósir að gera? Lítum nánar á málið.

Hvaðan kemur bleiki liturinn?

Nafn rósavína kemur upprunalega úr frönsku þar sem þau nefnast “vin rosé” – bleikt vín, eftir fölbleika litnum sem er einna algengastur þegar rósavín eru annars vegar. Með réttu ættu vínin því að heita bleikvín, rétt eins og rauðvín og hvítvín. Þrjár leiðir eru til við að gefa víni litinn sem gerir þau að rósavíni og sú algengasta er svokölluð bein snerting (fr. Pressurage direct), þ.e. snerting vínberjasafans við hýðið af berjunum. Svört vínber eru kramin og hýðið er látið liggja í safanum í stuttan tíma, yfirleitt 1 – 3 daga; því lengur, þeim mun dekkri verður bleiki liturinn. Maukið er svo pressað og hratið síað frá í stað þess að fá að liggja áfram í safanum í gegnum gerjunarferlið eins og gert er þegar rauðvín er búið til. Þar með er liturinn kominn og framhaldið við víngerðina er á sömu leið og ef um hvítvín væri að ræða.

 

Hvaða matur passar best með rósavíni?

Eins og framar greindi er rósavín í hugum flestra tengt við hækkandi sól og sumaryl, góðar stundir undir beru lofti og góðan félagskap. Þar sem bragðið er milt og þægilegt er pörun rósavíns við góðan mat nánast hafsjór af möguleikum. Þó má benda á að kjúklingur og sjávarfang, þar sem chili, lime og sítrónur, og sætar marineringar jafnvel með soya spila stórt hlutverk, smellpassa með rósavíni. Spilið þessum hráefnum saman með kælt rósavín á kantinum og kombóið getur ekki klikkað. Fírið upp í grillinu undir bláhimni og rósavínið er orðið ómissandi. Rósavín ræður líka vel við sæta eftirrétti, ekki síst þar sem mjólkursúkkulaði með ferskum ávöxtum er í aðalhlutverki.

 

Vissir þú að …

Fyrstu vínin sem búin voru til í forneskju voru að líkindum nær rósavíni en nútíma rauðvíni. Ástæðan er sú að aðferðir þær sem notaðar eru í dag við framleiðslu rauðvíns, til að mynda langtíma mesking og stífpressun, voru ekki iðkaðar í árdaga víngerðar. Þá voru þrúgurnar oftast pressaðar fljótlega eftir uppskeru, lítill tími gefinn í meskinguna (þ.e. þegar hýðið, steinarnir, safinn og aldinkjötið liggja saman í bleyti) og aðferðirnar sem notaðar voru í pressun skiluðu takmörkuðum lit í vínið. Rósavín á sér því sögu jafngamla víngerðinni sjálfri!

 

Hvernig væri að prófa?

Nú veistu hvernig rósavín verður til og með hvaða mat það passar einna best. Þar sem sumarið er brostið á er lag að prófa að fá sér “eitt kalt” í staðinn fyrir “einn kaldan” því það er miklu nettara að vera á undan rósavíns-tískubylgjunni sem er óumflýjanleg í sumar.

 


 

Muga Rosado 2015

4star

b_muga_rosado

Passar vel með: Kjúklingi, lax, salati og hvers konar smáréttum.

Lýsing: Föllaxableikt. Ósætt, meðalfylling, fersk sýra. Ferskja, hindber, suðrænn ávöxtur.

Vinotek segir:

Rauðvínin frá hinu frábæra Rioja-húsi Muga hafa löngum átt sinn fasta aðdáendahóp hér á landi og hefur hann raunar farið ört vaxandi á undanförnum árum. Fyrir nokkrum árum kom hvítvínið frá Muga einnig í sölu og nú er Muga að blanda sér í rósavínsbaráttuna fyrir sumarið 2016. Eins og allt annað sem að Muga kemur nálægt er þetta afbragðsvín í sínum flokki.

Blandan er svolítið sérstök fyrir rósavín því að um þriðjungur hennar er hvíta þrúgan Viura til viðbótar við Garnacha (60%) og Tempranillo (10%). Víngerjunin er í stórum eikarámum sem gefur víninu aukna dýpt. Það er fallega laxableikt á lit og í nefinu er heillandi angan þar sem greina má jarðaber, hindber, börk af greipávexti og nýbakaðar smákökur. Það hefur góða fyllingu, ávöxturinn langur, þurrt.

Vínsíðan segir:

Þetta er fölbleikt vín – laxableikt, frískleg angan af jarðarberjum, hindberjum, grænum eplum og sítrus, vottar aðeins fyrir eikinni. Frísklegt í munni – jarðarber, hindber, epli og smá apríkósur. Kostar 2.599 krónur í vínbúðunum, sem er líkleg aðeins í dýrari kantinum fyrir rósavín, en að mínu mati eitt af þeim bestu sem okkur bjóðast í vínbúðunum. Góð kaup.

 

Fortius Rosado 2014

3,5star

Fortius-Rosadorosdepacs

Passar vel með: Skelfiski, fiski, kjúklingi og hvers konar tapas-réttum

Lýsing: Ljósjarðarberjarautt. Létt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Jarðarber, hindber.

Víngarðurinn Vín Og Fleira segir:

Navarra var lengstum þekkt fyrir kraftmikil rósavín og þetta vín er einmitt ættað þaðan og hefur djúpan rifsberjarauðan lit. Það er meðalopið í nefinu og þar má greina jarðarber, hvít blóm, fersk kirsuber, hindber, sítrus og blóðappelsínu.

Í munni er það þurrt og nokkuð bragðmikið með töluverða sýru, góða byggingu og lengd. Þarna má finna jarðarber, hindber, blóðappelsínu og krydd. Ekki flókið en afar vel gert og flott matarvín sem er fínt með ljósu kjöti, krydduðum austurlenskum mat, ostum og pasta.

 

Pares Balta Ros De Pacs 2015

3,5star

rosdepacs

Passar vel með: Fiski, kjúklingi, grænmetisréttum og hvers konar tapas-réttum.

Lýsing: Ljósjarðarberjarautt. Ósætt, létt meðalfylling, sýruríkt. Ferskur rauður ávöxtur, hindber, rifsber.

Vínsíðan segir:

Þetta er fallega bleikt vín, með angan af jarðarberjum, hindberjum og smá kirsuberjum.  Í munni er ágæt blanda af sætu og sýru sem gefur víninu frísklegan blæ.  Hentar vel í garðveisluna, kokteilboðið og með mat – salat, fiskréttir og ljósir kjötréttir.

Cune Rosado 2015
4star

cune-rosado-2015

 

Lýsing: Ljósjarðarberjarautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Jarðarber, hindber.

Vinotek segir:

Cune er eitt af stærstu og elstu vínhúsunum í Rioja og framleiðir mörg af betri vínum héraðsins. Þetta rósavín er hreint Tempranillo-vín en það er líka meginþrúga rauðu Rioja-vínanna. Liturinn er fagur, rauðbleikur og ilmur vínsins sömuleiðis, hann einkennist af rauðum og sumarlegum berjum, jarðarberjum og hindberjum, smá rifs. Í munni hefur vínið góðan og sumarlegan ávöxt, fínan ferskleika. Unaðslegt sumarrósavín. 1.999 krónur. Frábær kaup.

 

Share Post