Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Bodegas Campillo – þar sem víngerð og listfengi fer saman

Íslendingar þekkja allflestir spænsku Faustino-rauðvínin frá Rioja-héraði. Enda er það svo að landinn þekktur fyrir dálæti á grillmat og fátt er betra með grilluðu kjöti en kraftmikið og tannínríkt vín úr Tempranillo þrúgunni sem er uppistaðan í hinum dimmrauðu Rioja-vínum. Mörgu vínáhugafólki gæti þótt fróðlegt að heyra að Faustino er aðeins ein víngerð innan samnefndrar samstæðu og eitt sérlega áhugavert systurfyrirtæki innan sömu grúppu er víngerðin Bodegas Campillo.  Þar á bæ er ekki bara lögð áhersla á framúrskarandi vín heldur er arkitektúr og samtímalist að sama skapi í miklum hávegum höfð.

Saga vínræktar og víngerðar í meira en 150 ár

Saga Grupo Faustino nær aftur til ársins 1961 er grunnurinn var lagður af ungum Spánverja að nafni Eleuterio Martinez Arzok.  Honum tókst þegar í stað vel til og víngerðin hélt velli, kynslóð fram af kynslóð. Það er svo ekki fyrr en að heilli öld liðinni, árið 1960, að vörumerkið Faustino lítur dagsljós og verður þegar í stað eftirsótt vörumerki í heimi vínsins. Í kjölfarið gengu í garð tímar vaxtar og velgengni (eins og við Íslendingar þekkjum mætavel, enda vínin víða í eftirlæti) og árið 1990 hefst rekstur nýrrar vínekru – Bodegas Campillo. Staðsetning víngerðarinnar er á allra besta stað í Rioja-héraði, nánar tiltekið í Alavesa-hluta svæðisins í skjóli Sierra de Cantabria fjallgarðsins. Þar lét Julio Faustino Martínez Martínez draum sinn rætast.

Í hjarta Rioja, að franskri fyrirmynd

Sá draumur var heldur betur stórhuga: að reisa víngerð í Rioja þar sem fyrirmyndin var ekta franskt château eins og þau gerast fallegust í Bordeaux – vínekra og víngerð á sama skikanum. Og þar var hvergi til sparað við að gera draumsýnina sem veglegasta. Stórfengleg bygging sem minnir á útbreiddan faðm á móti hinum fimm svæðum vínekrunnar. Frá aðalinnganginum er útsýni yfir öll svæðin og hringstiginn í miðju byggingarinnar tengir saman alla hluta hússins. Þar á meðal eru hinir óviðjafnanlegu vínkjallarar þar sem vínin þroskast og bíða þess þolinmóð að teljast hafa náð þeim gæðum sem þarf til að komast út á markaðinn. Það er því ekki fagurfræðin ein og sér sem er leiðarljósið í hönnun hússins. Vínkjallararnir hafa að geyma bestu aðstæður og fáanlega tækni til að hámarka gæði vínsins meðan það nær réttum þroska.

Hin allsráðandi Tempranillo … og þó!

Eins og við er að búast er góðkunningi okkar, hin bragðmikla þrúga Tempranillo, fyrirferðarmest þegar kemur að vínum Bodegas Campillo. Framleiðslan snýst líka að langmestu leyti um rauðvín en þó er meðal framleiðslutegunda sérlega spennandi hvítvín úr hinni vinsælu þrúgu Viura, sem utan Rioja er yfirleitt þekkt undir nafninu Macabeo. Að öðru leyti er Tempranillo alls staðar að sjá í framleiðslunni. Rósavínið Campillo Rosé er 100% Tempranillo og flestar gerðir rauðvínsins eru það líka. Þó eru fáeinar gerðir rauðvínsins með ákveðnu hlutfalli af Graciano þrúgunni (hvert hlutfallið er fæst ekki gefið upp) og loks er að nefna hið einkar áhugaverða rauðvín Raro Finco Cuesta Clara, sem er úr afbrigðinu Tempranillo Pelado, en sú þrúga gefur ákaflega lítið af sér og vínið eftir því fágætt og eftirsótt.

Vel þess virði að heimsækja

Fyrir alla sælkera og vínáhugafólk er vert að benda á að Bodegas Campillo leggja mikið uppúr framúrskarandi móttöku áhugasamra gesta. Margs konar áhugaverðar upplifanir eru í boði og má þess geta að leiðsögn um svæðið með smökkun og fræðslu kostar ekki nema 10 evrur fyrir fullorðna. Börnin koma frítt með og fá vitaskuld að smakka ógerjaðan og óáfengan vínberjasafa. Um leið er kjörið að heimsækja Campillo Creativo, en svo nefnist viðmikið nýlistasafn innan víngerðarinnar með á sjötta tug verka úr ýmsum stefnum og bæði eftir spænska og alþjóðlega listamenn. Það verður enginn svikinn af heimsókn til Bodegas Campillo og vissara að bóka tíma fyrirfram.

 

Hvernig væri að prófa?

Campillo Reserva

Rúbínrautt. Þétt fylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Dökk ber, barkarkrydd, kaffi, eik.

Passar vel meðnautakjöti, lambakjöti, og villibráð

Vínótek segir:


Það eru nú að verða ein þrjátíu ár síðan að Julio Faustino Martinez byggði  „chateau“-ið sitt og Campillo vínin eru orðin nokkuð rótgróin. Þetta eru tiltölulega nútímaleg Rioja-vín með áherslu á ávöxtinn þótt hefðin sé aldrei langt undan þegar að Faustino er annars vegar. Nokkuð dökkt á lit, dökkrauður ávöxtur í nefi, þroskuð kirsuber, tóbakslauf og ristaðar kaffibaunir, þykkt, eikin áberandi en ekki yfirþyrmandi, kröftug, fín og mjúk tannín.

 

Campillo Reserva Selecta

Rúbínrautt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra, þétt tannín. Rauð ber, vanilla, eik, trönuber, krydd.

 

Passar vel með nautakjöti, lambakjöti, grillmat og léttri villibráð.

Vínótek segir:

Reserva Selecta er enn meira vín en hið þó virkilega ágæta Reserva og hefur verið geymt í tæp tvö ár á tunnum úr amerískri eik áður en því er tappað á flöskur. Það er líka alltaf ánægjulegt að bragða á vínum frá 2010 árganginum, einn af þeim allra bestu í Rioja undanfrain ár.

Litur vínsins er þéttur, dökkur og djúpur, enn ungt að sjá. Mjög fókuserað, þétt, míneralískt, brómber, jarðarber, ávöxturinn þroskaður samofin leðri og sedrusviði, langt og mjúkt.

Share Post