Vínklúbbur fyrir þau sem hafa áhuga á víni

Jarðarberja gin & tónik

Hráefni

5 cl Martin Miller’s gin

1 jarðarber

Svartur pipar

1 fl. tónik

Aðferð:

Fyllið glasið með klökum, skerið jarðarberið í fernt og setjið útí glasið. Hellið 5 cl af Martin Millers gininu útí glasið, piprið örlítið og fyllið upp með tónik.

Cointreau Jarðarberja eftirréttur

Hráefni fyrir fjóra

200 g jarðaberja purée

200 g jarðaber

40 g sykur

20 g mynta

320 cl vatn

5 cl Cointreau

Aðferð:

Leyfðu myntunni að liggja í heitu vatni í 20 mínútur og síaðu hana svo frá. Blandaðu öllum innihaldsefnunum svo saman í blandara. Kældu blönduna, færðu hana yfir í fallegar skálar og berðu hana fram með ferskum jarðarberjum, litlum sykurpúðum og myntu. Það er einnig mjög gott að brjóta franskar makkarónur úti.

 

Hráefni

1 flaska spænskt rauðvín
½ appelsína
½ sítróna
1 Epli, ferskja eða pera
bláber, hindber eða jarðaber
2-3 tsk brúnn sykur
1/3 bolli Cointreau
¼ bolli brandy (má sleppa)
2 Kanilstönglar
½ dós límonaði (fanta lemon)
klakar

Aðferð:

Setjið klaka í stóra könnu, setjið sykur i könnuna og hellið rauðvíninu og Cointreau líkjörinu og brandí og hrærið saman. Bætið við límonaði og svo þeim ávöxtum sem þið ætlið að nota ásamt kanil stönglunum.
Látið standa í kæli í 15 mínútur til þess að sangrían nái aðeins að taka sig og bragðir fá ávöxtunum kemur áður en þið berið fram.

Eitt sem mig langar að koma að er að þegar þið hafið lítill tíma eða eruð að mæta í matarboð þá mæli ég með Sangría Lolea sem er til í ríkinu. Þar er tilbúin sangría sem er með engum erfiefnum eða litarefnum og þá þarftu bara að setja klaka á ávexti. Hún er allstaðar til hér á Spáni og Spánverjar bjóða stoltir uppá hana á veitingastöðum líka.

Steik og Muga

Marta Rún ritar:

Þegar grilltímabilið er á hæsta stigi er mikilvægt að breyta reglulega til meðlætinu. Ég var með smá “grillveislu” um daginn og hér eru tvær einfaldar uppskriftir af meðlæti sem passa vel með öllu grillkjöti.

Kjötið sem ég bauð uppá í veislunni var nauta-ribeye, steikt upp úr olíu, hvítlauk og rósmarín.

Kartöflur með fetaosti og oregano:

Hráefni

1 kg kartöflur, skornar í 2 cm báta
3 þunnskornir hvítlauksgeirar
1 msk oregano
75 g fetaostur
salt & pipar

Aðferð

Hitið ofninn í 220°
Sjóðið kartöflurnar í saltvatni í 7-8 mínútur. Þar til þær eru orðnar aðeins mjúkar en halda ennþá forminu þegar þið stingið í þær. Sigtið vatnið frá og látið þorna í nokkrar mínútur, setjið kartöflurnar í eldfast mót með olíu og salti, blandið vel og dreifið vel úr þeim.
Bakið í ofninum í 30-40 mínútur snúið kartöflunum nokkrum sinnum til þess að þær eldist jafnt, fái jafnan brúnan lit og séu jafn stökkar.

Þegar það eru 10 mínútur eftir af kartöflunum steikið hvítlauksgeirana á pönnu á miðlungsháum hita í 3-4 mínútur eða þangað til þeir eru orðnir gullbrúnir. Setjið hann yfir allar kartöflurnar og setjið kartöflurnar aftur í ofninn í um 4 mínútur. Þegar kartöflurnar eru tilbúnar stráið oregano og rifnum fetaostinn yfir og berið fram.

Salat með stökkri hráskinku, fíkjum, gráðosti og hunangssinneps-dressingu:

Blandað salat

Hráskinka er skorin í strimla og strimlarnir steiktir á pönnu með smá olíu þar til þeir eru orðnir stökkir. Strimlarnir eru settir á pappír og látnir þorna.
2 Ferskjur eða plómur, skornar í litla báta.
Gráðostur, rifinn yfir salatið

Dressing

2 msk balsamik edik
1 msk dijon sinnep
1 msk hunang
1 pressaður hvítlauksgeiri
3 msk ólífu olía
Salt og pipar

Allt hristist vel saman i krukku, ég gerði tvöfalda uppskrift af dressingunni og var með auka til hliðar ef einhver vildi meira sem og jú allir gerðu.

Með þessum rétt mælir Vínó með Muga Reserva

Muga Reserva 2012

4star

80027_Vinho_Muga_Reserva_750_ml (1)

Vinotek segir;

Muga hefur í gegnum árin verið eitt af allra bestu vínhúsum Rioja, að mörgu leyti skólabókardæmi um hvernig vín þessa héraðs eiga að vera. Stíllinn er klassískur Rioja-stíll, sem hefur engu að síður þróast með nútímalegri áherslum í héraðinu. 2012 er klassískur Muga, Dökkur kirsuberjaávöxtur í bland við sólber, kryddað, töluvert dökkristað kaffi, vanilla. Flott og vel strúktúrerað, kröftugt, öflug en mjúk tannín, langt. Kjötvín. 3.990 krónur. Frábær kaup. Vín fyrir grillað rib-eye eða T-bone.

Rósavín í sumar

Sumarið er kjörtími rósavínanna sem njóta nú sívaxandi vinsælda hér á landi rétt eins og í löndunum í kringum okkur. Rósavín búa yfir þeim eiginleikum að vera frískleg og henta þannig vel í sólinni en einnig eru þetta ágætis matarvín. Léttir réttir eru þá yfirleitt fyrir valinu, fiskur og bragðmikil salöt. Rósavín henta líka einkar vel með ýmsu grænmeti. Bakkar fullir af skinku, bragðgóðum pylsum og ostum af ýmsum tegundum henta til dæmis vel með þurru og fersku rósavíni. Á meðan millisæt rósavín parast vel með sushi og sterkum mat, eins og tælenskum og kínverskum. Grillaður lax hentar líka afar vel með rósavíni. Það er bara um að gera að prófa sig áfram og svo má ekki gleyma því að rósavín er líka gott að drekka eitt og sér.

Hérna eru nokkrar rósavínstegundir í uppáhaldi hjá okkur sem við mælum með fyrir sumarið.

Hvernig væri að prófa?

Adobe Rosé

Ljóslaxableikt. Létt fylling, sætuvottur, mild sýra. Jarðarber, lauf.

Passar vel með: hentar vel í móttökur eða bara eitt og sér í góðra vina hópi. Þau eiga vel með léttari mat s.s. salati, fiski, pizzu, pasta og ljósu kjöti.

Áfengis magn: 12%

Við mælum með að prófa með Fersku salati með burrata osti og hráskinku

 

Lamberti Rosé

Föllaxableikt. Sætuvottur, fíngerð freyðing, fersk sýra. Jarðarber, epli

Passar vel með: Tilvalin fyrir móttökur og aðra viðburði. Hentar einnig vel með mat eins og t.d. smáréttum, sushi, fiski, grænmetisréttum og ljósu fuglakjöti.

Áfengis magn: 11,5%%

Við mælum með að prófa með Pasta í ferskri tómatsósu

 

Fortius Rosé

Ljósjarðarberjarautt. Létt meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Jarðarber, hindber.

Passar vel með: hentar vel í móttökur eða bara eitt og sér í góðra vina hópi. Þau eiga vel með léttari mat s.s. salati, fiski, pizzu, pasta og ljósu kjöti.

Áfengis magn: 13,5%

Við mælum með að prófa með Salati með ofnbökuðu graskeri

 

Muga Rosé

Ljóslaxableikt. Meðalfylling, ósætt, fersk sýra. Hindber, jarðarber, ferskja, steinefni.

Passar vel með: hentar vel í móttökur eða bara eitt og sér í góðra vina hópi. Þau eiga vel með léttari mat s.s. salati, fiski, pizzu, pasta og ljósu kjöti.

Áfengis magn: 13,5%

Við mælum með að prófa með pastasalati

Grískt avókadó kjúklingasalat

Marta Rún ritar:

Hráefni

1 heill tilbúinn kjúklingur, rifinn niður í bita
1 avókadó
½ rauðlaukur skorin í litla bita
½ bolli kalamata olífur
½ krukka sólþurrkaðir tómatar skornir niður í minni bita
½ pakki fetaostakubbur rifinn í litla bita
1 salatpoki
Lúka af hnetum

Dressing

1/3 bolli ólífuolía
½ bolli grískt jógúrt
¼ bolli mæjónes
½ hvítlauksduft
1 tsk þurrkað oregano
1 msk rauðvínsedik
Safi frá ½ sítrónu
Salt og Pipar

Aðferð:

Blandið öllum hráefnum fyrir dressinguna saman í litla skál. Smakkið til og setjið hana til hliðar.

Finnið til stóra skál og blandið öllum hráefnum fyrir salatið saman og þar næst bætið þið dressingunni saman við og blandið öllu saman.

 

Með þessum rétt mælir Vínó með Cune Crianza

Cune Crianza 2015

Vínótek segir;

Cune er eitt af þremur vínhúsum innan CVNE (Compania Vinicola del Norte de Espana). Hin tvö heita Vina Real og Contino og öll þrjú hafa sína sérstöðu í Rioja og eru í hópi þeirra bestu í sínum flokki. Cune-vínin hafa verið að nútímavæða stílinn hjá sér síðustu árin og þessi Crianza er ávaxtrík og fersk. Ávöxturinn er rauður, mild berjablanda með örlitlum votti af vanillu og reyk, eikin er ekki í aðalhlutverki heldur ávöxturinn. Það er mjúkt, tannín mjög mild, vínið er ferskt og með miðlungs fyllingu.

2.299 krónur. Mjög góð kaup. Með léttum pastaréttum og ostum.

Fischer Gruner Veltliner 2017

Vínótek segir;

Thermenregion er tiltölulega ungt víngerðarhérað, það var formlega skilgreint í núverandi mynd árið 1985. Vínrækt á sér hins vegar aðeins lengri sögu á þessum slóðum, svona um það bil tvö þúsund ára lengri eða frá því að Rómverjar gróðursettu þarna fyrst vínvið. Héraðið nær til svæðisins suður af Vín og meðfram hæðunum sem teygja sig niður til bæjarins Baden. Hann, rétt eins og víngerðarhéraðið Thermenregion dregur einmitt nafn sitt af fornum baðhúsum Rómverja, Therme Pannonicae.

Weingut Fischer er líklega það vínhús svæðisins sem Íslendingar þekkja hvað best, vínin þaðan hafa verið fáanleg hér í um áratug eða svo. Hvítvínið úr Gruner Veltliner-þrúgunni er nú komið í útgáfu árgangsins 2017, það er ljósgult á lit, fölgrænir tónar, þroskuð gul epli, perur, mildur sítrus í nefi, milt og þægilegt, ágæt sýra og vínið hefur smá „pipraða“ áferð í munni eins og einkennir oft þessa skemmtilegu þrúgu, Gruner Veltliner.

1.999 krónur. Frábær kaup. Fínt pallavín fyrir sumarið.

Crasto Superior Syrah 2015

Vínótek segir;

Quinta do Crasto í Douro-dalnum í Portúgal er eitt þeirra vínhúsa sem hefur gert hvað mest fyrir ímynd venjulegra rauðvína frá þessu héraði sem margir tengja enn fyrst og fremst við portvínsframleiðslu. Fyrir nokkrum árum náði eitt af rauðvínum hússins þriðja sæti á árlegum topp 100 lista Wine Specatator sem var og er það hæsta sem vín frá Portúgal (sem ekki var portvín) hefur nokkurn tímann náð. Þrúgurnar í þessu víni eru frá búgarðinum Quinta da Cabreira í Douro Superior (Efri-Douro), sem er eitt þriggja undirsvæða Douro dalsins. Ólíkt flestum rauðvínum Douro er hér notuð frönsk þrúga, nánar tiltekið Syrah, sem nokkur önnur hús hafa þó einnig gert tilraunir með t.d. Quinta do Noval og Romaneira. Vínið er þar af leiðandi ekki í DO-flokkuninni heldur flokkað sem Vinho Regional Duriense.

Litur vínsíns er mjög dökkur og djúpur, dökkfjólublátt. Það er hiti í víninu, ávöxturinn heitur og sólþroskaður, kryddaður, en vínið heldur engu að síður ferskleika út í gegn. Þarna eru dökk ber, kirsuber og sólber sem renna saman við sæta vanillu og dökkt súkkulaði, þægilega sætan við. Tannín eru kröftug og þétt, þetta er vín með bæði mikla vöðva og sterk bein en jafnframt elegant fágun sem minnir á vönduðu frönsku Norður-Rónarvínin.

3.799 krónur. Frábær kaup. Þetta er magnað vín sem er fínt með nautalund eða hreindýrakjöti. Mætti einnig reyna með önd.

Whiskey Sour með Jim Beam Black Extra Aged!

Karen Guðmunds ritar:

Whiskey Sour í sólinni getur bara ekki klikkað og því ákvað ég að hrista í einn góðan með Jim Beam Black extra aged viskí.

Uppskrift fyrir: einn drykk

Hráefni

6cl Jim Beam Black Extra Aged viskí

2 cl ferskur sítrónusafi

2 cl sykursíróp

Appelsínubörkur til skreytingar

1 eggjahvíta

Aðferð:

Persónulega finnst mér best þegar ég er að búa til kokteil drykki sem innihalda eggjahvítur að nota báðar hliðar á hristaranum til að útbúa drykkinn, með því að gera það getur þú aðskilið öll hráefnin frá eggjahvítunni þar til það er komin tími til að hrista kokteilinn.

Í stærri hliðinni, brjóttu eggið og aðskildu eggjahvítuna frá eggjarauðunni.

Í smærri hliðina skaltu bæta ferskum sítrónusafa, sykursírópi og hrærðu aðeins í þessu, bættu síðan við Jim Beam.

Hellið þessu síðan yfir í stærri hliðina af hristaranum og hristið aðeins, það er mikilvægt að sameina eggjahvítuna aðeins við hin hráefnin áður en þú kælir drykkinn með klökum.

Bættu síðan klökum við ofan í hristarann og hristu aftur, mjög vel. Það er mikilvægt að hrista kokteil drykki vel saman þá sérstaklega þegar drykkirnir innihalda egg, líka til að fá eggið til að freyða fullkomlega.

Helltu síðan úr hristaranum í glös og skreyttu með appelsínubörk.